Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna

Friðrik Jón framkvæmdastóri LÍÚ fékk heldur leiðinlegar fréttir núna eftir áramótin, þegar mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lýsti yfir að kvótakerfið mismunaði mönnum. Hann heldur því reyndar réttilega fram að Íslandi þurfi ekki að fara eftir þessum niðurstöðum nefndarinnar, en til hvers eiga Íslendingar að vera í alþjóðasamstarfi ef við eigum ekki að hlíta þeirra niðurstöðum. Við höfum um sex mánuði til að fara yfir þessi plögg, svo að hann getur verið rólegur þetta kvótatímabilið. Á heimasíðu LÍÚ segir: „Mannréttindanefnd alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (CCPR), starfar á grundvelli alþjóðasamnings um borgaralega og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 sem veitir einstaklingum möguleika á að kæra brot aðildarríkis á ákvæðum samningsins.  Íslenska ríkið hefur samþykkt þessa kæruleið á hendur sér með valfrjálsri bókun frá 1979”.  Ef þessi leið er fær til að útkljá mál, af hverju þarf ekki að fara eftir úrskurðinum? Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, sagði þó að þessi dómur væri alvarlegt mál og það bæri að fara vel yfir hann. Það sem LÍÚ og sjávarútvegsráðherra telja vera helstu ágallana er að skaðbæturnar eru ekki tölusettar, svo ekki er hægt að sópa þessu máli umræðulaust undir teppi, því nú verða menn að fara semja um skaðabætur fyrir opnum tjöldum. Það alvarlegasta sem upp gæti komið að semja þyrfti eina ferðina ný lög um sjávarútveg. Er ekki lag núna einmitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu, það leysir alla kvótaumræðuna og um leið fá bankarnir sína Evru og skuldir heimilanna lækka til muna. Það yrði besta kjarabótin.

Félagsfundir VM með sjómönnum

Ég hef verið núna á tveimur félagsfundum með sjómönnum, þennan í Reykjavík og á föstudaginn á Akureyri. Þetta voru hinir bestu fundir, hefðu þó mátt vera betur sóttir. Það sem brennur helst á mönnum eru mönnunarmálin um borð í íslenskum fiskiskipum. Sá sem hefur hvað mest sinnt þessum málum fyrir okkar hönd í gegnum árinn, Helgi Laxdal, var ekki á fundinum. Helgi hefur verið í þessum málum í yfir 25 ár, situr í mönnunarnefnd í dag. Ég vil því spyrja formann félagsins, hví í ósköpunum er Helgi ekki með á þessum fundum? Þetta er hneisa, að maður sem veit hvað mest um málefni sjómanna skuli ekki vera boðaður á þessa fundi. Til Akureyrar var þó gott að koma, við hjónin gistum í íbúð VM á Furuvöllum, ansi fín íbúð og það besta var að allan laugardaginn gátum við verið á skíðum.


Framboðsgjörningur

Föstudaginn 23ja nóvember sl. hringdi varaformaður VM (Félaga Vélstjóra og Málmtæknimanna) til mín. Erindi hans var að biðja mig að draga framboð mitt til formanns VM til baka. Hann sagði mér að hann og formaður væru búnir finna kandídat til að fara í framboðið, en þeir vildu ekki bjóða hann fram nema að við fjórir sem erum þegar búnir að tilkynna okkar framboð drægjum þau til baka.

Ég varð mjög undrandi þegar ég heyrði þessar hugmyndir. Þeir ætluðu sem sagt að koma að kandídat sem þeim hugnaðist, og væri einn í framboði. Félagsmenn áttu bara að kokgleypa þennan gjörning formanns og varaformanns. Þeirra hugmynd er kannski sú að þeir gætu þá verið með puttanna í félaginu, þó svo að þeir væru sestir í helgan stein. Útskýringin sem ég fékk, var að sameining Félags Járniðnaðarmanna og Vélstjórafélagsins væri nýgerð og það gæti komið upp meiri ágreiningur meðal félagsmanna ef einhver okkar fjórmenninganna væri kosinn. Skilaboð formanns og varaformanns hljóta því að vera þau að félagsmenn séu það vitgrannir að þeir geti ekki unnið sem ein heild.

Þetta er móðgun við okkur frambjóðendur, að ég tali nú ekki um félagsmenn. Þeir vilja að félagsmenn fái nýja stjórn, varastjórn, kjörnefnd og formann án þessa að fá að kjósa. Það er eins og að félagsmönnum komi bara ekki við hverjir verða í forustu fyrir félagið, að mati núverandi formanns og varaformanns.

Ég vil ekki halda þessari ráðagerð leyndri eins og ég var beðinn um. Svona gjörningur á að vera uppi á yfirborðinu. Ef þetta er raunverulega skoðun þeirra þá hefðu þeir ekki átt að vinna að sameiningu þessara félaga. Mín skoðun er sú að formaður og stjórn eigi að vinna fyrir opnum tjöldum og að því markmiði að sameina félögin og ekki draga taum annars hvors eldra félagsins. Því fyrr sem félagsmenn gera sér grein fyrir því að hagsmunum þeirra er best borgið með því að allir vinni saman, því betra. Það var hugsun mín og þess vegna studdi ég sameininguna.


Fundur með pólskum járniðnaðarmönnum

Í gærkveldi þriðjudag, fór ég á félagsfund hjá VM, sem boðaður var fyrir pólska véla- og járniðnaðarmenn. Á fundinn mættu um 80 manns, svo að þörfin var mikil. Það var margt sem brann á þeim. Fór fundurinn fram á pólsku og var félagið með tvo túlka sér til aðstoðar. Það helsta er að þeir eru að fikra sig áfram í íslensku velferðarkerfinu sem þeir eru ekki búnir að átta sig á. Spurningar þeirra spönnuðu alla flóruna: hvernig væri hægt að leigja sumarhús; hvað gerist í vinnuslysum og hugsanlegar skaðabætur, þá fyrir utan örorku; hvernig orlof er greitt og reiknað; hvað geta aðstandendur gert við hugsanlegt dauðfall aðildarfélaga; hvernig virkar skattakerfi, persónuafsláttur, skattakort og lífeyrissjóðsmál. Eins og sést á þessari litlu upptalningu er margt sem vinnuveitandi upplýsir ekki sína starfsmenn um. Eins og segir hér á undan var þetta vel sóttur fundur og heppnaðist hann vel í alla staði og ber að þakka VM fyrir tímabæran fund. Það gerðist þó eitt atvik á fundinum sem vert er að minnast á, inn á fundinn ruddist einn vinnuveitandi og heimtaði að fá „sína menn” með sér af fundinum, þar sem þeir voru ekki boðaðir á fundinn á löglegan hátt. Það var eins og gamall þrælahaldari væri kominn á staðinn til að hafa hemil á lýðnum. Vinnuveitandinn veittist að starfsmönnum VM með offorsi og skömmum, hans menn væru í öðru félagi og því mættum við ekki tala við þá. Hann var ekki að ósekju hræddur um að VM kæmist í þá samninga sem hann var búinn að gera við sína starfsmenn. Ef þetta eru viðbrögð vinnuveitenda við félagafrelsi sinna starfsmanna, þá er mikil vinna framunda hjá VM.

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala meir um þessar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar, en ég læt slag standa og geri það samt. Hérna er nokkur atriði sem í þessum aðgerðum felast.  Það er áætlað að leggja einn milljarð á næstu þremur árum til framkvæmda við endurbætur og viðhalds fasteigna og mannvirkja í eigu ríkisins. Hvað kemur það fiskvinnslufólki og sjómönnum við, ekki nema við eigum að hætta allri fiskvinnslu og fara vinna við þessi mannvirki.  Sveitafélögin eiga að fá 750 milljónir vegna aflasamdráttar sem mun leiða til tekjuminnkunar hafna. Þetta atriði er að mínu viti réttlætanlegt. Námsframboð og nám- og starfsþjálfun í framhaldsskólum og símenntunarmiðstöðva á landbyggðinni verður eflt um 100 milljónir árið 2007 og 100 milljónir árið 2008. Þetta er að því góða, nú geta sjómenn og fiskvinnslufólk sótt skóla og um leið hætt öllum afskiptum af sjávarútvegi. Það er kannski þau markmið sem mótvægisaðgerðirnar eiga að ganga út á? Atvinnuleysissjóður fær 15 milljónir í ár og 45 milljónir árið 2008 til að mæta 4% atvinnuleysi sem hlýst af aflaniðurskurði. Gott og vel, þetta getur nýst þeim er missa atvinnuna. Það verður samt hver að meta hvort er betra að hafa vinnu eða hitt? Veitt verður 58 milljónir í Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum. Fyrir þessa peninga á að ráða upplýsingarfulltrúa, túlka og þróunarfulltrúa.  Þetta er fínt verkefni, það verður hægt að segja upp útlendingunum á móðurmáli sínu, miklu betra en að segja því upp á okkar ylhýra.  Gert er ráð fyrir ráðningu á tveimur starfsmönnum í frumkvöðla- og háskólasetrinu á Hornafirði, með áherslu á starfssemi Vatnajökulsþjóðgarðs, í peningum talið 32. miljónir. Það verður örugglega ekki ráðið í þetta starf fiskvinnslufólk eða sjómaður. Þarna er verið að búa til stöðu fyrir sérfræðing sem ekki kemur sjávarútvegi við á neinn hátt.  200 milljónir á að leggja í atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni, með það að markmiði að auka stuðning við nýsköpun og þróun nýrra atvinnutækifæra. Ég er hlynntur svona aðgerðum, það að efla atvinnu á landsbyggðinni. Það hefur verið vandamál landbyggðarinnar er einhæfi í atvinnumálum. Vonandi tekst þessu félagi að koma með einhverja heilstæðar lausnir í þessum efnum.  Gert er ráð fyrir því að þjóðskjalasafn fái á næstu þremur árum 140 miljónir til að hefja grunnskráningu og endurskráningu á lítt eða óskráðum skjalasöfnum og stafræna gerð manntala.  Ekki get ég séð hvað gagn fiskvinnslufólk og sjómenn hafa af þessu. En sem verðandi sagnfræðingur lýst mér vel á þetta. Þetta er þó þannig mál að ríkisstjórnin á að hundskast til að gera þetta án þess að skýla sér bak við sjávarútveginn.  

Það er gert ráð fyrir endurbætur á vegum, fjarskiptasambandi og raftengja Vestfirði. Það er af hinu góða, en það á ekki að koma mótvægisaðgerðum við. Það jákvæða við þessi atriði er að nýir vegir gerir fólki á landbyggðinni auðveldara að flýja til Reykjavíkur og það getur verið í stöðugu GSM sambandi á meðan.

 

Vandi sjómanna.

Á forsíðu Fréttablaðsins í gær 5. nóvember er verið að fjalla um flótta sjómann úr stéttinni. Ástæðan er talin vera markaðverð á sjávarafurðum, gengismál og niðurskurður á aflaheimildum. Allt eru þetta gildar ástæður, þar sem sjómaðurinn er í aflahlutakerfi, hann fær sín laun í sama hlutfalli og útgerðin. Skipum hefur fækkað sl. áratug um 60-70 skip, eigi að síður er vandi að manna flotann vönum sjómönnum. En er það eitthvað fleira sem veldur flótta úr sjómannastéttinni?Það gleymist að í þessari umræðu að tala um atvinnumál í landi. Þar hafa tækifærin stóraukist, störfum fjölgað og laun hækkað mikið bæði fyrir lærða og ólærða starfsmenn. Það togar líka í menn að vilja vera innan um fjölskyldu sína alla daga, ekki aðeins þegar koppurinn er í landi. Þróun í hinum vestræna heimi er sú að það verða alltaf færri og færri sem vinna við frumatvinnugreinarnar, sem fara halloka fyrir þjónustugreinum. Þegar óvanur maður ræðst á sjó, verður hann strax fullgildur háseti. Fer á sömu laun og sá sem er búinn að vera áratug á sjó. Í gamla daga var til hálfdrættingar til sjós, strákar sem voru að hefja feril sinn, en fyrst um sinn voru þeir aðeins á hálfum hlut. Ég efast um að svoleiðis fyrirkomulag myndi bjarga nokkru. Flest skip eru ekki í stakk búinn til að fjölga í áhöfn, það vantar vistarverur og annan aðbúnað. Það er þá spurning hvort ekki eigi að hefja verklega kennslu í sjómennsku. Ekki getum við allir orðið bankamenn.Þessi umræða er kominn í loftið og samtök sjómanna og útgerðar ættu að halda fund til að ræða þessi mál, finna lausnir, ef þær eru til.

Æviferilsaðferð

Æviferilsaðferð (life cycle approach) er ný greining á þeim vanda sem hver glímir við á ævinni, svo sem málefni barna, unglinga, fólks á starfsaldri, aldraða og öryrkja. Við hjá félagi eins og VM, glímum við nokkra þætti í þessu ferli, m.a. málefni fólks á starfsaldri og aldraða félaga. Við sem verkalýðsfélag erum skyldug að halda æviferilsafkomu svo að enginn okkar sé eftir bátar annarra í þjóðfélaginu. Við verðum að halda launaþróun okkar áfram á öllum okkar samningsstöðum. Við verðum að ná þeim árangri með rannsóknum og tæknilegum útfærslum á sáttargerðum okkar við samningagerð. Að vera öllum okkar félagsmönnum innanhandar, hvort sem þeir eru sestir í helgan stein eður ei, með félagsstarfi, samkomum og stöðugri upplýsingargjöf.

Vilji félagsmanna VM er oft margbrotin, en við eigum eigi að síður koma fram sem eitt félag. Það var ætlun félagsmanna með sameiningunni að mynda eitt félag, þótt þeir séu kannski ekki sammála öllum málefnum er taka þarf afstöðu til. Menn eru hins vegar fúsir til að beygja sig fyrir ákvörðun meirihlutans, jafnvel þótt þeir séu þeim ósammála. Það er forustunnar að virða þær ákvarðanir sem teknar eru og vinna eftir þeim. Þeir sem veljast til forustu fá þau verkefni að breyta og/eða viðhalda lögum félagsins og stefnu, en það er félagsmannanna að kjósa um þessi verkefni, þess vegna þurfa félagsmenn að vera virkir. Auka þarf aðgengi félagsmanna í þessu ákvarðanaferli eins og hægt er, og mun ég beita mér fyrir því, verði ég kosin.


Jákvæðni í garð verkalýðsfélaga

Það birtist merkileg skýrsla frá Alþjóðabankanum fyrir nokkrum misserum. Þar var því haldið fram að hagkerfi hagnist betur ef vinnuaflið sé skráð í verkalýðsfélög. Skýrslan bendir á að þau lönd þar sem margir eru skráðir í verkalýðsfélög er lægri verðbólga, lægra atvinnuleysi, meiri framleiðni og fljótari aðlögun að öllum hreyfingum hagkerfa. Þátttaka í verkalýðsfélögum minnkar líka launamun milli karla og kvenna, svo og milli menntaðra og ómenntaðra. Þetta er nú í fyrsta sinn sem Alþjóðabankinn er svo jákvæður í garð verkalýðsfélaga. Þetta eru niðurstöður sem verkalýðfélög eiga að nýta sér til eflingar og innri skoðunar. Verkalýðurinn á Íslandi sannaði mikilvægi verkalýðsfélaga fyrir rúmum einum og hálfum áratug með þjóðarsáttinni, með því að taka á sig launaskerðingu sem stöðvaði óðaverðbólgu sem þá geisaði í landinu. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn sem stöðvuðu verðbólguna þó að þeir reyni að eigna sér heiðurinn.

Reglubundnir samningar milli stjórnvalda, aðila á vinnumarkaði þ.e. atvinnurekanda og frjálsra félagasamtaka eins og VM, verða að vera stöðugt í gangi um efnahagsmál og félagsmál, svona nokkurskonar þjóðarsáttarmál. Síðan þjóðarsáttin var gerð á Íslandi hefur verið virkt samstarf aðila á ýmsum sviðum þjóðlífsins og hefur orðið öllum til gagns. Það er því mikilvægt fyrir félag eins og VM að vera í góðu sambandi við stjórnvöld á öllu tímum.


Á sjó

Jæja, þá er þessi innivera búin. Ég er að fara á sjóinn í kvöld, en ég reyni að fá allar athugasemdir sendar til mín á hafið og reyni að svara þeim eftir megni. Ef ég svara ekki strax þá geri ég það þegar ég kem í land aftur.

Mínar hugleiðingar vegna framboðs til formanns í VM félagi vélstjóra og máltæknimanna

Ég býð mig fram til formanns í félagi okkar VM félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Ég læt liggja fyrir á síðunni ferilskrá svo að menn geti séð hvað á mína daga hefur drifið.

Ég lít á okkar félag fyrst og fremst sem þjónustufélag og verði ég kjörin þá lít ég á mig sem ykkar þjónn. Ég vil að félagarnir geti haft samband við mig með öll sín mál, hvað sem  ykkur liggur á hjarta. Ég mun hlusta.

Þessi bloggsíða á að veita ykkur pláss til að koma með þær tillögur, hugmyndir og gagnrýni sem á ykkur liggja.Þessi skrif hér að neðan eru til að ýta úr vör umræðum á þessari síðu um hvaða sýn þið viljið sjá og hvert svona félag eigi að stefna. Ef svör frá mér verða stopul, þá er það vegna þess að ég er á sjó. Ég mun reyna fá ykkar athugsemdir sendar til mín á sjóinn eftir aðstæðum og sendi þá svörin eins fljótt og auðið er. Meira mun svo bætast á þessa síðu er fram líður, mínar hugleiðingar og ykkar

  1. Það þarf að halda áfram með sameiningarferlið. Þeir vankantar  eru ennþá í loftinu að menn eru að tala um tvö félög. Því verður að linna. Við erum eitt félag,  eigum að líta á okkur sem eina heild, hætta að draga okkur í dilka,  öll erum við jöfn sem félagsmenn.

  2. Félagið er þjónustuaðili fyrir félagsmenn. Ég mun beita mér fyrir því að auka þjónustu á öllum sviðum. Það helsta er; bæta þarf aðgengi félagsmanna til menntunar,  símenntunar og endurmenntunar. Auka þarf þjónustu vegna sumarhúsaleigu, tjaldvagna og utanferða (utanferðastyrkir). Að allir félagsmenn séu meðvitaðir um hvaða sjóðir félagsins þeir geti leitað til ef þörf krefur. Til hvers  er sjúkrasjóður  og hvaða tilgangi  nýtist  hann félagsmönnum.

  3. Vinnu verður haldið áfram  til stækka og efla félagið með öllum tiltækum ráðum. Hægt er að stækka félagið með sameiningu fleiri járniðnaðarfélaga á landsbyggðinni við VM. Með því að standa vörð um iðn- og vélstjóramenntun. Því fleiri sem útskrifast úr námi, eru líkur á að þeir gerist félagar í VM. Áhuga ungmenna er hægt að auka fyrir náminu á margvíslegan hátt, t.d. með því að launin í þessum geira hækki, með auglýsingum og kynningum á fjölbreytileika starfsins, með margmiðlun og hugsanlega með tæknisafni. Tæknisafni þarf að koma á fót svo ungmenni þessarar þjóðar sjái hvernig tæknin vinnur á sem einfaldastan hátt, þetta ætti að vera liður í kennsluáætlun menntunar á unglingastigum. Svona safni þarf að koma á fót með samvinnu við menntamálayfirvöld ríkis,  sveitafélaga og atvinnulífsins. Til að efla félagið þarf að stand vörð um fjárhag félagins, þó ekki svo að félagið eigi að fara safna einhverjum fúlgum í sjóð, heldur á að vera til nægt fé til að sinna þeirri þjónustu sem svona félög eiga að sinna.

  4. Félagið þarf auðvita að standa vörð um laun og launaþróun í landinu til handa félagsmönnum. Vera vakandi yfir þeim breytingum  sem gerast ansi hratt í okkar hraða þjóðfélagi, svo sem hvaða áhrif hið frjálsa flæði vinnuafls sem EES-samningurinn felur í sér. Hvaða menntun hafa járniðnaðarmenn og vélstjórar sem eru að flæða yfir markaðinn.  Hvaða áhrif hefur það á launaþróun, hvaða menntun hafa þessi menn og er hún samhljóma menntun félagsmanna.

Næsta síða »

Höfundur

Valgeir Ómar Jónsson
Valgeir Ómar Jónsson

Ég býð mig fram til formanns í félagi okkar VM félagi vélstjóra og málmtækni- manna. Ég læt liggja fyrir á síðunni ferilskrá (sjá hér) svo að menn geti séð hvað á mína daga hefur drifið.

Ég lít á okkar félag fyrst og fremst sem þjónustufélag og verði ég kjörin þá lít ég á mig sem ykkar þjónn. Ég vil að félagarnir geti haft samband við mig með öll sín mál, hvað sem ykkur liggur á hjarta. Ég mun hlusta. Þessi bloggsíða á að veita ykkur pláss til að koma með þær tillögur, hugmyndir og gagnrýni sem á ykkur liggja.

Netfang: omar@centrum.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband