Mínar hugleiðingar vegna framboðs til formanns í VM félagi vélstjóra og máltæknimanna

Ég býð mig fram til formanns í félagi okkar VM félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Ég læt liggja fyrir á síðunni ferilskrá svo að menn geti séð hvað á mína daga hefur drifið.

Ég lít á okkar félag fyrst og fremst sem þjónustufélag og verði ég kjörin þá lít ég á mig sem ykkar þjónn. Ég vil að félagarnir geti haft samband við mig með öll sín mál, hvað sem  ykkur liggur á hjarta. Ég mun hlusta.

Þessi bloggsíða á að veita ykkur pláss til að koma með þær tillögur, hugmyndir og gagnrýni sem á ykkur liggja.Þessi skrif hér að neðan eru til að ýta úr vör umræðum á þessari síðu um hvaða sýn þið viljið sjá og hvert svona félag eigi að stefna. Ef svör frá mér verða stopul, þá er það vegna þess að ég er á sjó. Ég mun reyna fá ykkar athugsemdir sendar til mín á sjóinn eftir aðstæðum og sendi þá svörin eins fljótt og auðið er. Meira mun svo bætast á þessa síðu er fram líður, mínar hugleiðingar og ykkar

  1. Það þarf að halda áfram með sameiningarferlið. Þeir vankantar  eru ennþá í loftinu að menn eru að tala um tvö félög. Því verður að linna. Við erum eitt félag,  eigum að líta á okkur sem eina heild, hætta að draga okkur í dilka,  öll erum við jöfn sem félagsmenn.

  2. Félagið er þjónustuaðili fyrir félagsmenn. Ég mun beita mér fyrir því að auka þjónustu á öllum sviðum. Það helsta er; bæta þarf aðgengi félagsmanna til menntunar,  símenntunar og endurmenntunar. Auka þarf þjónustu vegna sumarhúsaleigu, tjaldvagna og utanferða (utanferðastyrkir). Að allir félagsmenn séu meðvitaðir um hvaða sjóðir félagsins þeir geti leitað til ef þörf krefur. Til hvers  er sjúkrasjóður  og hvaða tilgangi  nýtist  hann félagsmönnum.

  3. Vinnu verður haldið áfram  til stækka og efla félagið með öllum tiltækum ráðum. Hægt er að stækka félagið með sameiningu fleiri járniðnaðarfélaga á landsbyggðinni við VM. Með því að standa vörð um iðn- og vélstjóramenntun. Því fleiri sem útskrifast úr námi, eru líkur á að þeir gerist félagar í VM. Áhuga ungmenna er hægt að auka fyrir náminu á margvíslegan hátt, t.d. með því að launin í þessum geira hækki, með auglýsingum og kynningum á fjölbreytileika starfsins, með margmiðlun og hugsanlega með tæknisafni. Tæknisafni þarf að koma á fót svo ungmenni þessarar þjóðar sjái hvernig tæknin vinnur á sem einfaldastan hátt, þetta ætti að vera liður í kennsluáætlun menntunar á unglingastigum. Svona safni þarf að koma á fót með samvinnu við menntamálayfirvöld ríkis,  sveitafélaga og atvinnulífsins. Til að efla félagið þarf að stand vörð um fjárhag félagins, þó ekki svo að félagið eigi að fara safna einhverjum fúlgum í sjóð, heldur á að vera til nægt fé til að sinna þeirri þjónustu sem svona félög eiga að sinna.

  4. Félagið þarf auðvita að standa vörð um laun og launaþróun í landinu til handa félagsmönnum. Vera vakandi yfir þeim breytingum  sem gerast ansi hratt í okkar hraða þjóðfélagi, svo sem hvaða áhrif hið frjálsa flæði vinnuafls sem EES-samningurinn felur í sér. Hvaða menntun hafa járniðnaðarmenn og vélstjórar sem eru að flæða yfir markaðinn.  Hvaða áhrif hefur það á launaþróun, hvaða menntun hafa þessi menn og er hún samhljóma menntun félagsmanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Valgeir, Mér líst vel á það hjá þér, þú talar um að félagið sé fyrst og fremst þjónustufélag, á það ekki líka að standa vörð um réttindi, eins er skilgreining á vinnuskildu vélstjóra, hana þarf að afmarka greinilega hvað menn eiga að gera, eins vinnutíma, ef farið er út fyrir þann ramma á að koma til góð aukagreiðsla . Eina skilgreining sem ég veit um varðandi vinnuskildu er í 53 gr sjómannalaga.  Eins varðandi ráðningu hjá útgerð en ekki á skip, Mundir þú vilja fara sem vélstjóri á einhvern smádall sem Grandi hugsanlega keypti og setti á handfæraveiðra, Þó svo að það sé nú kannski öfgafullt dæmi þá gæti komið sá tíma að slíkt kæmi upp.  Þá er eins með þetta blessað hlutaskiptakerfi, sem er löngu gengið sér til húðar. Er ekki tími núna að gera kröfu um að launakerfið verið gert svipað og gerist hjá öðrum launþegum þessa lands, svo er að staðfæra það að þeim vinnustað sem við vinnum á, fjarri heimili okkar. Eins varðandi LÍÚ þá þarf í næstu samningum að fá LÍÚ til að ganga þannig frá málum að útgerðarmenn standi við þá samninga sem LÍÚ gerir fyrir þeirra hönd, en þar er allmikill misbrestur á, t.d. Guðmundur vinalausi kenndur við Brim. Við þurfum að standa vörð um starfið okkar og réttindin okkar. Félagskveðja Böðvar

Böðvar Eggertsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 21:13

2 Smámynd: Valgeir Ómar Jónsson

Sæll Böðvar,

Það hefur verið vandi að gera heilstæðan samning um vinnuskyldu vélstjóra um borð í fiskiskipum. LÍÚ þeir vilja alls ekki tala um slíkan samning. Ég er á því að við eigum að vinna að svoleiðis samning og leggja hann einhliða fram í kjaraviðræðum. Friðrik heitin Hermannsson lögfræðingur,  skrifaði fyrir nokkrum árum grein um vinnuskyldu vélstjóra í Vélfræðinginn, út frá sjómannalögum. Ég er því miður ekki með þessa grein hérna á hafinu, til að vitna í hana. Ef þú finnur hana hvet ég þig til að lesa hana. Jú, auðvita á félagið að standa vörð um réttindi allra sinna félagsmanna og samningur um vinnuskyldu væri nauðsynlegt að eiga. Það mundi að mínu mati auðvelda alla samningagerð, sérstaklega við LÍÚ.

Ég geri ráð fyrir því að þú sért að meina þegar þú talar um vinnutíma, þá sé það umfram vaktir á sjó, svokallaðar frívaktir. Það hefur ekki verið samið um aukagreiðslur fyrir frívaktir. Náttúrulega á að borga fyrir þær vaktir aukalega, þar sem gert er út á þær og mannskapurinn fær ekki einu sinni hvíld samkvæmt lögum. Ég hef heyrt að svo sé gert í Noregi. Þetta hefur líka með mönnunarmál að gera, þar sem fækkað hefur verið á skipum og bátum niður fyrir lögskráningu er illt við það að eiga. Menn vita hvað þeir hafa verið að ráða sig á og verða því miður að taka þeim afleiðingum. Ég tel að mönnunarmál á bátum og skipum verði þrætuepli í næstu samningum, þar sem raunmönnun hefur verið breytt á verri veg. Það virðist vera lenska að níðast á sjómönnum, þeir segja aldrei nei, þegar skip eru yfirfull af fiski. Það verður bara að koma honum í lestina hvernig sem mannskapurinn er á sig kominn og sjómenn gera það með sinni elju.

Hlutaskiptakerfið, það er nú kapítuli fyrir sig. Í einhverri samningalotunni, þá kom Kristján Ragnarsson þáverandi formaður LÍÚ, með þá tillögu að setja sjómenn á fastalaun. Við tókum ágætlega í það að ræða málið, en það var undireins blásið af borðinu af LÍÚ. Þeir vilja ekki annað kerfi en hlutaskipti. Ef við eigum að fara á þannig kerfi, hver eiga launin að vera og hvað á að vera innifalið í þeim (þá er nú nauðsynlegt að vera búin að gera starfslýsingu fyrir vélstjóra)? Þessum spurningum er erfitt að svara, við þurfum umræðu um málið, svo mikið er víst.

Allir samningar sem ég hef tekið þátt í hafa verið túlkaðir á mismunandi vegu, á einn hátt hjá okkur (þann rétta auðvitað) og á annan hátt hjá LÍÚ (þann ranga). Oft þarf að fara með þetta fyrir dómstóla til að fá úrskurði um þessar túlkanir, því miður. Það er bara ein leið til að fá útgerðamenn til að standa við gerða kjarasamninga, það er að kæra þá ef þeir brjóta þá. Það krefst hins vegar þess að einhver úr áhöfninni þarf að leggja fram kæru, það virðist ekki vera hægt að félagið geri það sem slíkt. Það þarf alltaf nafn og kennitölu á bak við kæruna.

Ef ég hef ekki skilið þínar spurningar eða meiningin er önnur, þá bið ég þig að skrifa aftur og ég mun svara. Þú verður að afsaka hvað ég hef verið lengi að svara, en þegar maður er á sjó, kemur pósturinn ekki á hverjum degi. Ég er ekki með netið um borð, svo að ég er að fá þetta sent með e-mail.

Valgeir Ómar Jónsson, 1.10.2007 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valgeir Ómar Jónsson
Valgeir Ómar Jónsson

Ég býð mig fram til formanns í félagi okkar VM félagi vélstjóra og málmtækni- manna. Ég læt liggja fyrir á síðunni ferilskrá (sjá hér) svo að menn geti séð hvað á mína daga hefur drifið.

Ég lít á okkar félag fyrst og fremst sem þjónustufélag og verði ég kjörin þá lít ég á mig sem ykkar þjónn. Ég vil að félagarnir geti haft samband við mig með öll sín mál, hvað sem ykkur liggur á hjarta. Ég mun hlusta. Þessi bloggsíða á að veita ykkur pláss til að koma með þær tillögur, hugmyndir og gagnrýni sem á ykkur liggja.

Netfang: omar@centrum.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband